
Ég verð látinn laus þann 12. maí og mun þá skunda rakleiðis heim að tjá mig um mat hér á blogginu.
Áður en ég fer vil ég þó mæla með hinum smekklega ósmekklega veitingastað Við Tjörnina, þá sérstaklega kjúklingalifrar paté með sultuðum eplum, sem boðið er uppá í forrétt. Mér þótti ótrúlega gaman að koma á þennan stað. Róleg og hugguleg stemmning í skringilega skreyttu gömlu timburhúsi við Templarasund. Það mætti segja að Við Tjörnina sé Einar Ben sem búið er að pimpa í döðlur. Í aðalrétt fékk ég fiskitvennu; smálúðu og blálöngu í koníaksósu með steiktu rótargrænmeti, en staðurinn er fyrst og fremst sjávarréttarstaður. Allt var mjög gott og átti blálangan vinninginn.
![]() |
Við Tjörnina |
Þá hvet ég fólk til að fýra upp í grillinu! Í síðustu viku ætlaði ég að hefa grilltímabilið og fór út á svalir til að athuga hvort það væri ekki alveg örugglega í lagi með Omega 300 gasgrillið sem staðið hefur án yfirbreiðslu á svölunum síðastliðin 3 ár. Nú var því nóg boðið. Það var hálf myglað að innan, ryðgað og almennt ógeðslegt - mér til mikillar óhamingju - þar sem ég var nýbúinn að skella kjúklingalundum í BBQ-sósu. Það er eitthvað rangt við að barbecue-a ekki BBQ-legnar lundir, en ég lét þó pönnuna duga í þetta skiptið. Það var allt í lagi, þó ég mæli ekki með því.
Það var ástríðukokkurinn Biggi bróðir sem kynnti fyrir mér grillaðar kjúklingalundir í BBQ. Fyrir það var ég haldinn miklum BBQ-fordómum - alltaf verður maður víðsýnni.
BBQ kjúklingalundir með kartöfluteningum og salati:
Innihald:
1 pakki kjúklingalundir
BBQ-sósa - helst Jack Daniel´s
1 stór sæt kartafla
2 bökunarkartöflur
Ólífuolía
Rósmarín
Maldon salt
Nýmulinn pipar
Salatblanda
Tómatur
Gúrka
Avokado
Saxaðar pistasíur
Balsamsýróp
Lundirnar - aðferð:
Látið lundirnar liggja í BBQ-sósu um stund. Því lengur því betra. Grillið á útigrilli og penslið um leið BBQ-sósu á lundirnar. Tilbúið!
Kartöfluteningar - aðferð:
Skerið sæta karöflu og bökunarkartöflurnar í netta teninga. Látið á eldfast form. Hellið vel af ólífuolíu yfir. Kryddið vel með sjávarsaltinu, nýmuldum pipar og rósmarín (það er líka gott að krydda með timian). Hrærið í fatinu og kryddið betur. Þá er fatið sett inn í 180°C heitan blástursofn í a.m.k. 30 mínútur. Það er varla hægt að ofelda kartöflur en það er ekki gott að hafa þær of lítið gerðar. Ég hræri aðeins í fatinu á meðan það er inni í ofni þannig að efstu teningarnir verði ekki þurrir.
Salat
Hráefnið hér að ofan er að sjálfsögðu aðeins hugmynd - ég hef yfirleitt það sem til er í ískápnum - enda er alltaf gurm þar inni. Það er mikilvægt að borða vel af salati og því enn mikilvægara að það sé girnilegt, fjölbreytt og ferskt!