Í gærkvöldi kom nýbakaði Sólvellingurinn Ásgeir Guðmundsson í mat til okkar. Svo er mál með vexti að í síðustu viku flutti hann inn í gullfallega risíbúð, rétt hinum megin við Hofsvallagötuna, og því ekki langt að fara. Um helgina bauð hann í glæsilegt innflutningsmatarboð og kom því ekki annað til greina en að gera vel við drenginn.
Í matinn var pestóbleikja frá Hofi í Öræfum, þ.e.a.s. bleikjan - fiskeldið er ekki það framarlega í Öræfasveit. Með bleikjunni höfðum við hreint kus-kus og gott salat eins og Björgu einni er lagið. Í eftirrétt var skyrterta Fabrikkunnar, sem markaðssnillingarnir tveir eru farnir að selja í Hagkaupum. Skyrtertan er mjög vel heppnuð, en heiðurinn á Erla Ívarsdóttir, kokkur á Geirlandi við Kirkjubæjarklaustur. Þess má til gamans geta að við Ásgeir gistum einmitt á Geirlandi síðasta sumar, þó það fylgi ekki sögunni hvernig það kom til.
-Uppskriftin miðar við fjóra-
Hráefni:
Pestóbleikja:
4 bleikjuflök
1 krukka grænt pestó
1/2 Sítróna
Maldon salt og nýmulinn svartur pipar
Parmesanostur
Meðlæti:
Hreint kúskús
Smjörvi
Maldon salt
---------------
Salat að eigin vali
Kirsuberjatómatar
Rauð paprika
Avókadó
Feta-ostur
Fræblanda
Aðferð:
Pestóbleikjan:
Beinhreinsið flökin og leggið þau á ofnbakka með álpappír undir. Stráið salti og myljið pipar yfir flökin. Að því loknu er gott að kreista smá sítrónusafa yfir flökin. Því næst eru þau þakin með grænu petstói (magn pestósins er smekksatriði) og parmesanostur rifinn yfir. Flökin fara inn í 180°C heitan ofn á bakstri í u.þ.b. 12 mínútur. Það er mjög gott að setja á grillstillingu rétt í lokinn, í tvær mínútur eða svo.
Kus-kus:
Setjið kus-kus í skál, 2-3 dl ættu að duga. Bætið við smá af Maldon salti og góðri klípu af Smjörva. Sjóðið vatn í hraðsuðukatli og hellið yfir þannig að yfirborð vatnsins fljóti u.þ.b. 1 cm yfir kus-kusinu. Leggið disk yfir skálina. Bíðið í 10-15 mín. Þá er það tilbúið - einfalt! Kus-kus getur stundum orðið þurrt og því er alltaf gott að hella smá ólífuolíu yfir og hræra í því áður en það er borið fram.
Snillingur ertu Pétur Hrafn!
ReplyDeleteÞetta blogg er hér með komið í Google Readerinn minn.
Takk fyrir það Kristín! Bara ef ég vissi hvað Google Reader er, ég er að læra á þetta. Var einmitt að "follow-a" þig, sem mig grunar núna að sé það sama ;) Allt að gerast!
ReplyDeleteÞetta finnst mér skemmtilegt! öðruvísi...gaman!
ReplyDeleteSkemmtilegar myndir
kv. Helga
takk fyrir mig elskulegur! Get sagt ykkur að þessi máltíð svíkur engann!
ReplyDelete