Bananabrauð vekur upp bernskuminningar, enda mjög barnvænt brauð. Fátt er betra en nýbakað bananabrauð með smjöri, osti og ískaldri mjólk. Nýlega fór mig að langa í þetta bragð úr fortíðinni og fann fjöldan allan af uppskriftum á netinu. Allar innihéldu þær það ógurlega mikið af sykri að kalla mætti bananakökuuppskriftir.
Eftir þónokkrar prufur og betrumbætur hef ég sett saman uppskrift að sykurskertu hollustu*brauði í þremur útfærslum; fortíðarbananabrauð, valhnetu- og kókosbrauð og döðlubrauð. Allar byggja þær á sama grunninum.
*þegar ég segi "hollustu" þá á ég við að notaðar séu lífrænar lítið unnar vörur. Gróft korn í stað hvíts hveitis, hrásykur eða önnur náttúruleg sætuefni í stað hvíts sykurs, o.s.frv. Svo má að sjálfsögðu deila um næringarinnihald og kosti lífrænnar ræktunar, en eðlileg skynsemi segir manni að lítið unnar vörur sem ræktaðar eru án gerviefna og innihalda ennfremur engin slík efni, séu að minnsta kosti skárri kostur.
Innihald:
4 ævagamlir bananar - því eldri því betri!
2 bollar spelt (gott að nota gróft og fínt til helminga)
1/3 bolli hrásykur
1 egg
1 tsk himalayasalt
1 tsk matarsódi
1 tsk vínsteinslyftiduft
Aðferð:
1. Stappið bananana líkt og enginn sé morgundagurinn. Bætið út í egginu og sykrinum. Hrærið vel saman.
2. Sigtið speltið ofan í blönduna í nokkrum lotum. Skerið þess á milli í deigið með sleif þannig að speltið blandist við. Ef öllum þurrefnunum væri skellt út í deigið í einu lagi og hrært saman í hrærivél þá yrði brauðið þungt og missti allt loft og léttleika.
3. Bætið saltinu, matarsódanum og lyftiduftinu við og skerið í með sleif þannig að blandist vel.
4. Setjið eina örk af bökunarpappír í form og hellið deiginu í formið.
5. Bakist í miðjum ofni við 180°C í 50 mínútur (á bakstri ekki blástri).
Hér að ofan er komin hin einfalda og ljúfenga uppskrift að fortíðarbananabrauði. Til að gera valhnetu- og kókosbrauð er einfaldlega bætt við lúku af gróft söxuðum valhnetukjörnum og lúku af kókosflögum.
Döðlubrauðið góða inniheldur aftur á móti engan sykur. Þá er hrásykrinum skipt út fyrir 8 döðlur. Best er að steinhreinsa döðlurnar og setja þær í matvinnsluvél þar til þær eru alveg maukaðar. Þá er þeim bætt saman við stöppuðu bananana í skrefi 1 hér að ofan. Döðlubrauðið er aðeins "þykkara" í sér en alveg unaðslega gott. Ég hef aldrei prófað að bæta valhnetum, kókos eða eihverju öðru góðgæti í döðlubrauðið en það gæti vel flogið!
![]() |
Valhnetu- og kókosbrauð |
Go bake!
Skellti í afbrigði af fortíðinni í dag. Mætti kalla það fortíðarbrauð með heslihnetum. Lét sem sagt heslihnetur í það en ég lét líka bara hálfan dl af hrásykri en bætti það upp með einni krukku af barnamat (epla og plómu). Brauðið varð reyndar frekar gúmmíkent og ég er ekki alveg viss hvort það er út af barnabatnum eða hvort ég hefði mátt bæta við 10 mín í ofninum.
ReplyDeleteHaha vel gert! Sakar ekki að skella barnamat í brauðið, þetta verð ég að prófa. Stelpurnar hljóta að hafa fílað þetta.
ReplyDelete