Þegar ég var í New York vorið 2009 vorum við Björg og Áslaug systir hennar á hosteli í Upper West Side. Hinum megin við götuna var þessi týpíski beyglustaður þar sem við snæddum gjarnan morgunverð. Þar var hægt að fá beyglur með allt of miklum rjómaosti, sveitt egg og beikon, gallon af Caffé Americano og allt þar fram eftir götunum. Staðurinn stóð fyrir sínu, en ég efast um að margir hafi bloggað um hann, enda ekki í frásögur færandi, fyrir utan hina himnesku "Greek omelette" sem ég slysaðist til að panta einn morguninn. Í henni eru tómatar, svartar ólífur og fetaostur - ekki flókið en kemur ótrúlega vel út! Eftir að heim var komið fór ég að gera mína eigin grísku ommelettu sem gefur hinni bandarísku ekkert eftir. Það líður ekki sú vika sem ég skelli ekki í eina gríska - það mætti segja að hún væri mitt "specialitet".
Greek omelette
Hráefni:
5 egg
1/2 dl mjólk
Smjör
5-10 svartar ólífur - skornar í bita
1 tómatur
Fetaostur
Paprikukrydd
Maldon salt
Nýmulinn pipar
Aðferð:
Brjótið eggin í skál og pískið aðeins til. Blandið mjólkinni við og pískið þar til eggin og mjólkin hafa blandast vel - ég hræri í u.þ.b. 30 sek. því það er ekki gott að hæra eggjablöndur of mikið. Kryddið með paprikukryddi, smá salti og nýmuldum pipar. Það er alveg óhætt að setja vel af paprikukryddinu, svo set ég yfirleitt vel af pipar líka - en kyddmagn verður að fara eftir smekk.
Hitið pönnu (ég nota keramikpönnu) upp í rúman meðalhita (6 af 9) og setjið góða klípu af smjöri út á. Þegar loftbólur eru farnar að koma í bráðið smjörið hellið þá eggjablöndunni rólega á pönnuna. Raðið tómatsneiðum, ólífum og fetaosti á annan helming ommelettunnar. Þegar ommelettan er farin að stífna aðeins í kantana og losna frá pönnunni (eftir u.þ.b. 5 mínútur) er öðrum helmingnum velt yfir á hinn þannig að úr verði hálfmáni. Þá má hún vera áfram á pönnunni í u.þ.b. 1 mínútu og svo er gott að snúa henni við, aðeins til að brúna báðar hliðar. Ég skipti henni oft í tvennt áður en ég sný henni við, það er auðveldara þannig og ommelettan nægir fyrir tvo þannig að það er fínt að skipta henni á pönnunni.
Það verður að passa að ofelda eggin ekki - ommeletta er best þegar hún lekur aðeins, en ekki þurr og svampkennd, eins og hún verður við of langa dvöl á pönnunni. Tímarnir að ofan eru bara til viðmiðunar - það er mat hverju sinni.
Svo er gott að krydda hana aðeins með salti og pipar og hafa ristað brauð með osti og appelsínusafa með. Meistaraárdegisverður!
No comments:
Post a Comment