![]() |
Kir Royal |
Á fimmtudaginn í síðustu viku, þann 10. mars, tók mín heittelskaða enn og aftur fram úr mér í aldri. Hún varð 24 ára gömul. Í tilefni þess buðum við fjölskyldunni heim í mat. Í þetta skiptið lét ég Hrefnu Sætran um aðalréttinn (semi eftirréttinn líka) og pantaði sushi frá Fiskmarkaðnum. Þjónustan var frábær, uppsetningin mjög flott, sushið að sjálfsögðu algjört lostæti og á góðu verði. Ég mæli hiklaust með þessum möguleika, að panta sushi í þessum gæðaflokki og snæða það heima í stofu! Það er pantað í gegnum heimasíðu staðarins með a.m.k. eins dags fyrirvara. Panta verður fyrir minnst tíu manna veislu. Við vorum reyndar sjö, en það má víst blöffa á veraldarvefnum.
Ég gat þó ekki setið algerlega aðgerðarlaus, með afmælisboð og gesti á leiðinni, og ákvað því að hafa fordrykk, smá nasl fyrir matinn og eftirrétt.
Í fordrykk buðum við uppá Kir Royal. Einhvers staðar las ég að þetta væri vinsælasti fordrykkurinn í brúðkaupum - enda bleikur og seiðandi. Virkilega mátulegur fordrykkur sem allir kunna að meta.
Innihald:
2 cl. Creme de Cassis (sólberjalíkjör)
9 cl. Faustino Cava Semi seco (spænskt freyðivín)
Aðferð:
Hellið líkjörnum í kampavínsglas og fyllið upp með freyðivíni. Svo má til dæmis skreyta með kirsuberi.
Í Vínblaðinu fann ég þennan skemmtilega fróðleik um fordrykkinn:
"Sólberjalíkjör eða Cassis er framleiddur á Bourgogne í Frakklandi. Cassis er svo notaður i hina vel þekktu drykki Kir og Kir Royal, en þeir eru nefndir eftir borgarstjóranum í Dijon, honum til heiðurs. Drykkurinn var áður kallaður Blanc Cassis. Á eftirstríðsárunum áttu líkjörsframleiðendur í miklum erfiðleikum, og tók Kir þá upp þann sið að bjóða þeim sem heimsóttu Dijon upp á Blanc Cassis."
Með fordrykknum höfðum við heimatilbúinn hummus og stökkar brauðstangir til að dýfa í með. Hugmyndin er komin frá Tryggva Birni og Fabien, en þegar við vorum í London hjá þeim síðasta vor buðu þau upp á ljúffengan hummus og brauðstangir úti í garði áður en dottið var í alvöru Sunday roast að hætti Englendinga. Góð minning. Því miður vorum við ekki úti í garði í þetta skiptið.
Hummusinn sem ég bjó til er í ætt við ekta arabískan hummus. Ekki þessi stífi þurri hummus sem við eigum að venjast hér heima, heldur sléttur og silkimjúkur, enda er það til siðs í Miðausturlöndum að dýfa falafel brauði í hummus og borða hann þannig. Ég vanmat hvers 150 grömm af kjúklingabaunum eru megnugar og gerði því tvöfalda uppskrift - sem endað með u.þ.b. einum lítra af hummus. Það sakaði ekki, fólk var að fíla hummusinn og allir sendir heim með sinn skammt.
Innihald:
150 g þurrkaðar kjúklingabaunir, látnar liggja í bleyti yfir nótt og síðan skolaðar
600 ml vatn
2 stórir hvítlauskgeirar pressaðir
Safi úr einni sítrónu
75 ml ólífuolía
150 ml ljóst tahini (sesamfræjamauk)
Cayennepipar
Aðferð:
1. Settu baunirnar og vatn í stóran pott og láttu baunirnar malla í hálflokuðum potti í 2 - 3 klst., þar til þær eru meyrar (ég lét þær malla í 2 og hálfan og það var meira en nóg - 2 tímar ættu að duga). Helltu soðinu af þeim í skál og geymdu. Taktu frá 2-3 msk af baunum og settu afganginn í blandara ásamt hvítlauknum.
2. Bættu við sítrónusafa, olífuolíu og 150 ml af baunasoðinu og maukaðu allt saman. Bættu tahini út í og láttu vélina ganga áfram þar til maukið er slétt. Kryddaðu það með salti og cayennepipar. Láttu vélina ganga aðeins lengur. Settu hummusinn í skál.
3. Dreyptu örlitlu af ólífuolíu yfir. Skreyttu með steinselju, cayennepipar og nokkrum kjúklingabaunum.
Að lokum var kvöldið kórónað með heitri súkkulaðiköku með græntessúkkulaði og vanilluís. Hér er um að ræða súkkulaði fondant, þ.e. sókkulaðiköku sem er blaut í miðjunni. Kakan er bökuð í litlum muffinsformum (ég notaði sílikonform - mjög gott!). Deig er sett upp að miðju formi, einn moli af heimatilbúnu græntessúkkulaði lagður í miðjuna og fyllt upp að brún formsins með deigi. Kakan er svo bökuð í 12 mínútur í ofni.
![]() |
Mynd af mynd - já það er púkó. |
Uppskriftin er að sjálfsögðu komin frá Hrefnu Sætran, en hana er að finna í nýútkominni bók hennar, Fiskimarkaðurinn, sem heitir eftir staðnum góða. Af virðingu við hana og höfundarétt hennar kann ég ekki við að deila uppskriftinni en mæli klárlega með bókinni. Ég hef gert nokkra rétti, bæði forrétti, aðalrétti og eftirrétti úr bókinni sem allir hafa slegið í gegn. Það eina sem ég hef út á bókin að setja er að hráefnin sem hún notar í réttina eru oft og tíðum illfáanleg hér á landi þannig að það getur verið mikið basl að sanka þeim að sér, en það er klárlega þess virði þegar upp er staðið!
Njótið.
Mmmm... þetta var allt æði en súkkulaðikakan átti vinninginn að mínu mati.
ReplyDeleteÉg fékk að smakka herlegheitin sem post-afmælisgestur (=gestur sem kemur á 3.í afmælisdag) og get vottað fyrir að súkkulaðikökurnar eru himneskar og hummusinn sömuleiðis.
ReplyDeleteNamm!
Þið gleðjið mig!
ReplyDeletePippi, þetta er allt of girnilegt! þessi síða er frábær! kv. Gugga
ReplyDeleteRespect and I have a keen offer you: How Much Is Home Renovation victorian house remodel
ReplyDelete