Monday, February 28, 2011

Heimsborgarinn

Stundum þurfa menn að leggja frá sér hveitigrasstaupið og lífrænu döðlunar og fá sér alvöru óhollustu. Það er eimitt það sem við félagarnir gerðum í fyrrakvöld áður en farið var út á lífið. Það er þó grundvallaratriði, að þegar gera á vel við sig á annað borð, þá þýðir ekkert hálfkák.

Ég hef haft það fyrir reglu, að í þau fáu skipti sem ég geri hamborgara heima hjá mér, stefni ég ávallt að sama markmiðinu: Að útbúa besta hamborgara í heimi. Það hefur blessunarlega tekist í öll skiptin.

Á núverandi titilhafa er eftirfarandi:
Dijon sinnep
Smá hamborgarasósa
Tómatur, gúrka og kál
Smjörsteiktir sveppir
Spælt egg (báðum megin)
2x skinkusneiðar (steiktar á pönnu með osti á milli)
140 gr. hamborgari (meðalsteiktur)
"Best á borgarann" kryddblanda 


Heimsborgarinn

Saturday, February 26, 2011

Friday, February 25, 2011

HaPP


Nýverið opnaði veitingastaðurinn HaPP á hinu tómlega Höfðatorgi. Nafn staðarins stendur fyrir "Healty and Pure Products", sem er vissulega réttnefni, enda einungis boðið uppá gargandi hollustu og ferskleika. Að sögn staðarins er gert út á það að leyfa listrænni tjáningu að njóta sín og gerðar þær kröfur til matarins að hann sé í senn spennandi fyrir augað og bragðlaukana og styrki og bæti heilsuna. Þetta markmið hefur heppnast fullkomlega.

Það verður að segjast að HaPP á ekki beint heima í steinsteypugráa glerkassanum, sem andyri turnsins á Höfðatogi er, en það fer batnandi. Ég sæi stað sem þennan frekar fyrir mér í litlu timburhúsi í miðbænum, jafnvel úr lífrænu timbri!

HaPP er í flokki lífrænna staða, ásamt Gló, Grænum kosti, Krúsku, Manni lifandi o.fl. Þetta eru allt yndislegir staðir og ég þakka fyrir þá hollustuvakningu sem varð hér á landi með þeim afleiðingum að staðir sem þessir spruttu upp eins og gorkúlur. Þó framboðið sé nú orðið mikið, er eftirspurnin klárlega til staðar því það er alltaf nóg að gera á öllum þessum stöðum. HaPP sker sig þó úr með frumleika og fallegri framsetningu.

Á hverjum degi er í boði pizza dagsins - HaPP pizza. Það er ástæðan fyrir því að ég féll fyrir staðnum. Þetta er nokkurs konar hráfæðis pizza, því aðeins botninn er bakaður, ekkert annað.

HaPP pizza
Ég fór að reyna við þessa snilld á heimavelli, og viti menn, útkoman var unaður. Þó ég segi sjálfur frá þá á HaPP ekki roð við minni eftirlíkingu, þó heiðurinn að hugmyndinni liggi að sjálfsögðu þeirra megin. Ég geri HaPP pizzu þegar allskonar er til í ísskápnum; grænmeti, ávextir og hvað eina, en allt stefnir í óefni, síðasti söludagur á næsta leyti og hringrásin í lágmarki á tveggja manna heimili. Hugmyndin er einmitt sú að nota hvað sem er á pizzuna, koma út því sem til er - það skiptir ekki máli hvað það er svo lengi sem hráefnið er ferskt.

Mín útgáfa
Fyrst þarf að baka botn. Ég nota gamla uppskrift að pizzabotni frá Sterlu, móður góðvinar míns Lúðvíks, þó ég sé nú aðeins búinn að jazz-a hana upp með spelti. Þessi uppskrift nægir í 3 pizzur.

5 dl gróft spelt (eða 50/50 gróft/fínt spelt - eða bara fínt spelt fyrir óþekka)
2 dl heitt vatn
1 gerbréf (má nota vínsteinslyftiduft í staðinn)
1 tsk salt
1 msk ólífuolía

Þrátt fyrir gerið í deiginu er óþarfi að leyfa því að lyfta sér, svo segir Sterlan. Skiptið deiginu niður í 3 parta og fletjið út þunnbotna kökur sem eru á stærð við stóran matardisk. Að því loknu skal pensla degið með ólívuolíu og rífa vel af ferskum parmesanosti yfir. Því næst fer botninn inn í 180°C heitan ofn, stilltan á blástur. Það er smekksatriði hvort botninn á að vera algerlega crunchy eins og hrökkbrauð eða aðeins mjúkur þannig að hann brotni ekki í sundur, bæði gott. Fyrir crunchy botn nægja 20 mínútur inni í ofni, annars 16-17 mínútur. Ath. þetta er bullandi slump.

Þegar botninn er tilbúinn skal smyrja á hann u.þ.b. hálfri krukku af rauðu (eða grænu) pestói. Ég mæli með DeRit lífrænu pestói. 

Þá er komið að því að setja áleggið á pizzuna, sem eins og fyrr segir má vera hvað sem er. Það er þó nauðsynlegt að hafa einhvers konar salat í grunninn, t.d. rucola, salatblöndu sem seld er í plastboxum eða veislusalat á tyllidögum. Ofan á það kemur góð blanda af mismunandi grænmeti, ávöxtum, ostum o.fl. Sem dæmi hef ég sett gúrku, papriku, tómata, steikta sveppi, melónur (hvaða týpu sem er), bláber, hindber, peru, epli, kiwi, avókadó, grófa bita af parmesan, ferskan mozzarella, fræblöndu, smá olíu, rauðvínsedik og pipar. Að sjálfsögðu fer ekki allt á sömu pizzuna, en það sem er feitletrað má ekki missa sín. Ekki vera hrædd við að blanda saman grænmeti og ávöxtum, útkoman svíkur engan. Svo má að sjálfsögðu bæta við einhverju kjötáleggi eins og parmaskinku, lamakjöti, nauti eða hverju sem er, fyrir þá sem fyrirlíta kjötlausar máltíðir.


Thursday, February 24, 2011

Froðufimi

Það er vel við hæfi að byrja á því að fjalla um biblíu áhugakokksins, Stóru matarbókina. Þessi snilld inniheldur aðallega aðferðir við matseld, allt frá því hvernig sjóða á egg til þess hvernig skal hreinsa ígulker, en þó einnig uppskriftir og ýmsar upplýsingar um öll möguleg hráefni.

Einn þeirra meistarakokka sem leggja sitt af mörkum til bókarinnar, sem er skifuð af 18 sleggum, er Ferran Adriá. Hann er maðurinn að baki El Bulli, sem er einn fremsti veitingastaðurinn í heiminum, staðsettur á Norður-Spáni. Þess má geta að staðurinn er það eftirsóttur að eigendur hans sáu sér einfaldlega ekki fært að halda áfram rekstri. Á heimasíðu staðarins segir:
"On July 30th 2011 El Bulli will have completed its journey as a restaurant. We will transform into a creativity center, opening in 2014. Its main objective is to be a think-tank for creative cuisine and gastronomy and will be manage by a private foundation. We regret not being able to fulfill any more reservation requests. Demand has immediately exceeded our scarce availability. This has been the case over the last few years and is certainly the most bitter note. It makes us very sad."
Ferran Adriá er faðir froðunar, hvorki meira né minna! Eðlilega fjallar því hans kafli í Stóru matarbókinni um froður. Froður hafa alltaf verið mér fjarlægar og framandi. Eitthvað sem kemur "óvænt" sem listauki á fínum veitingastöðum frá kokkinum. Meðfylgjandi er yfirleitt frasi í þessa veru: "Hér erum við með fennelfroðu á dillbeði með wasabi-kurli". Mörgum finnst froður bölvað snobb. Ég elska froður, þær eru yfirleitt mjög bragðgóðar og um leið léttar. Fennelfroða á dillbeði með wasabi-kurli er að öllum líkindum snilld - svo einfalt er það.

Hér má sjá Ferran að froða sig upp!
Í síðustu viku gerði ég tvær tilraunir til að froða mig upp. Þær mistókust gott sem báðar. Í fyrra skiptið reyndi ég við einföldustu froðuna í bókinni, mangófroðu með grísku jógúrti og hindberjamauki. Í sjálfu sér er froðugerð ekki flókin, það sem þarf er einfaldlega alvöru rjómasprauta og eitthvað flótandi gotterí sem sett er í sprautuna. Það er þó mikilvægt að útbúa hið fljótandi gotterí eftir kúnstarinnar reglu til þess að stífla ekki rjómasprautuna og fá fallega áferð á froðuna. Það þarf að sigta allan vökva í gegnum fínt sigti áður en það er sett í sprautuna. Þá þarf í flestum tilfellum, eigi froðan að vera stíf og falleg, að nota gelatín, innihaldi þau matvæli sem í sprautuna fara ekki náttúruleg stífingarefni. Það var einmitt það sem ég brenndi mig á. Ef gelatíni er blandað við t.d. sigtað mangómauk, eins og í mínu tilfelli, verður að passa að kæla blönduna ekki um of, því þá situr maður uppi með stíft hlaup með óbragði, sem er alls ekki hægt að lokka út úr rjómasprautunni, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Ég var svo miður mín eftir þetta klúður, enda með fólk í mat, að ég hafði ekki lyst á því að mynda klúðrið.

Hér að ofan má þó sjá mig hella sigtuðu mangómaukinu röggsamlega ofan í rjómasprautuna. Ef froðan hefði heppnast sem skyldi, átti að sprauta henni lystilega ofan á jógúrtina í glösunum til hægri. Nokkuð lekkert - líklega ekkert sérstaklega góð blanda þó. Blame it on Ferran!

Síðari tilraunina gerði ég fyrir drengina mína í lögfræðinni. Ég hóaði mannskapnum saman í forfordrykk fyrir árshátíð nemendafélagsins. Þá kom náttúrulega ekki til greina að bjóða mönnum uppá nokkuð annað en froðu og því varð "Gin-Fizz" hanastél Ferrans fyrir valinu. Hanastélið samanstendur af sítrónu krapís og 60°C heitri sítótrónufroðu, allt með afar miklu gini í. Í þetta skiptið tókst froðutilraunin fullkomlega, þrátt fyrir að hanastélið sem slíkt hafi verið í súrari kantinum. Það stöðvaði menn þó að sjálfsögðu ekki frá því að svolgra því í sig.

Froðan er gerð úr léttþeyttum eggjahvítum, sykursírópi (sem ég gerði kvöldið áður), nýkreystum sítrónusafa og gini. Krapísinn er gerður úr sítrónusafa, sykursírópi og gini. Þar sem fizzið var ekkert til að hrópa húrra fyrir læt ég það eiga sig að koma með nánari útlistun á aðferðinni. Aðalmálið er að froðan tókst! Ég er hvergi hættur í froðutilraunum, enda fátt skemmtilegra.


Gin Fizz

Friday, February 11, 2011

Eldhúsblogg

Hér lítur dagsins ljós mitt fyrsta blogg - matarblogg - en þessa hugmynd hefur mig lengi langað að framkvæma. Á yngri árum var ég lukkulega laus við öll áhugamál og gat því einbeitt mér að óhollum lifnaðarháttum og almennu hangsi. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, og eins og gamla máltækið segir kennir neyðin ungum einbúum að elda - og um leið njóta.

Í dag get ég vart rifið mig úr eldhúsinu né leitt hugann að öðru en góðgæti - þannig að skaðlegt fer að verða fyrir framtíð mína sem laganema. Þegar áhugamálin leiða mann á hálan ís er um að gera að leyfa öðrum að njóta góðs af.

Hér kem ég til með að deila öllu því sem á daga mína drífur og ég tel tengjast matseld, delicatessi, góðgæti, gurmi, bílífi, borðsiðum, fegurð, því að njóta og einnig því að vera.

Vonandi geta sem flestir haft gagn og gaman af.