
Nýverið opnaði veitingastaðurinn HaPP á hinu tómlega Höfðatorgi. Nafn staðarins stendur fyrir "Healty and Pure Products", sem er vissulega réttnefni, enda einungis boðið uppá gargandi hollustu og ferskleika. Að sögn staðarins er gert út á það að leyfa listrænni tjáningu að njóta sín og gerðar þær kröfur til matarins að hann sé í senn spennandi fyrir augað og bragðlaukana og styrki og bæti heilsuna. Þetta markmið hefur heppnast fullkomlega.
Það verður að segjast að HaPP á ekki beint heima í steinsteypugráa glerkassanum, sem andyri turnsins á Höfðatogi er, en það fer batnandi. Ég sæi stað sem þennan frekar fyrir mér í litlu timburhúsi í miðbænum, jafnvel úr lífrænu timbri!
HaPP er í flokki lífrænna staða, ásamt Gló, Grænum kosti, Krúsku, Manni lifandi o.fl. Þetta eru allt yndislegir staðir og ég þakka fyrir þá hollustuvakningu sem varð hér á landi með þeim afleiðingum að staðir sem þessir spruttu upp eins og gorkúlur. Þó framboðið sé nú orðið mikið, er eftirspurnin klárlega til staðar því það er alltaf nóg að gera á öllum þessum stöðum. HaPP sker sig þó úr með frumleika og fallegri framsetningu.
Á hverjum degi er í boði pizza dagsins - HaPP pizza. Það er ástæðan fyrir því að ég féll fyrir staðnum. Þetta er nokkurs konar hráfæðis pizza, því aðeins botninn er bakaður, ekkert annað.
HaPP pizza |
Ég fór að reyna við þessa snilld á heimavelli, og viti menn, útkoman var unaður. Þó ég segi sjálfur frá þá á HaPP ekki roð við minni eftirlíkingu, þó heiðurinn að hugmyndinni liggi að sjálfsögðu þeirra megin. Ég geri HaPP pizzu þegar allskonar er til í ísskápnum; grænmeti, ávextir og hvað eina, en allt stefnir í óefni, síðasti söludagur á næsta leyti og hringrásin í lágmarki á tveggja manna heimili. Hugmyndin er einmitt sú að nota hvað sem er á pizzuna, koma út því sem til er - það skiptir ekki máli hvað það er svo lengi sem hráefnið er ferskt.
Mín útgáfa |
Fyrst þarf að baka botn. Ég nota gamla uppskrift að pizzabotni frá Sterlu, móður góðvinar míns Lúðvíks, þó ég sé nú aðeins búinn að jazz-a hana upp með spelti. Þessi uppskrift nægir í 3 pizzur.
5 dl gróft spelt (eða 50/50 gróft/fínt spelt - eða bara fínt spelt fyrir óþekka)
2 dl heitt vatn
1 gerbréf (má nota vínsteinslyftiduft í staðinn)
1 tsk salt
1 msk ólífuolía
Þrátt fyrir gerið í deiginu er óþarfi að leyfa því að lyfta sér, svo segir Sterlan. Skiptið deiginu niður í 3 parta og fletjið út þunnbotna kökur sem eru á stærð við stóran matardisk. Að því loknu skal pensla degið með ólívuolíu og rífa vel af ferskum parmesanosti yfir. Því næst fer botninn inn í 180°C heitan ofn, stilltan á blástur. Það er smekksatriði hvort botninn á að vera algerlega crunchy eins og hrökkbrauð eða aðeins mjúkur þannig að hann brotni ekki í sundur, bæði gott. Fyrir crunchy botn nægja 20 mínútur inni í ofni, annars 16-17 mínútur. Ath. þetta er bullandi slump.
Þegar botninn er tilbúinn skal smyrja á hann u.þ.b. hálfri krukku af rauðu (eða grænu) pestói. Ég mæli með DeRit lífrænu pestói.
Þá er komið að því að setja áleggið á pizzuna, sem eins og fyrr segir má vera hvað sem er. Það er þó nauðsynlegt að hafa einhvers konar salat í grunninn, t.d. rucola, salatblöndu sem seld er í plastboxum eða veislusalat á tyllidögum. Ofan á það kemur góð blanda af mismunandi grænmeti, ávöxtum, ostum o.fl. Sem dæmi hef ég sett gúrku, papriku, tómata, steikta sveppi, melónur (hvaða týpu sem er), bláber, hindber, peru, epli, kiwi, avókadó, grófa bita af parmesan, ferskan mozzarella, fræblöndu, smá olíu, rauðvínsedik og pipar. Að sjálfsögðu fer ekki allt á sömu pizzuna, en það sem er feitletrað má ekki missa sín. Ekki vera hrædd við að blanda saman grænmeti og ávöxtum, útkoman svíkur engan. Svo má að sjálfsögðu bæta við einhverju kjötáleggi eins og parmaskinku, lamakjöti, nauti eða hverju sem er, fyrir þá sem fyrirlíta kjötlausar máltíðir.
Þessi pizza er tær snilld! Kveðja, Sólveig
ReplyDeleteþú verður einhverntímann að bjóða mér uppá lamakjöt sem ég býst við að komi af lamadýri .... spennandi ;)
ReplyDeleteHefur þú ekki smakkað Lamborgarann á Hamborgarafabrikkunni? Lamakjötið er "inn" í dag.
ReplyDelete